Vinnum saman að því að þróa sameiginlega sýn á umgjörð skólastarfsins til næstu ára.

Ákveðið hefur verið að fá ráðgjafa til að greina möguleikana við þróun starfs Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla næstu árin og styðja skólasamfélagið við að móta sameiginlega sýn á umgjörð skólastarfsins og væntingar til lengri tíma.

Verkefið hefst í byrjun febrúar með því að Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Ráðgjafi hjá Ásgarði skólaráðgjöf heimsækir skólann.  Hann vill gjarnan hitta forráðamenn (einn eða tvo frá hverju heimili)  allra barna við skólann til að ræða framtíðarsýn um þróun skólastarfs á svæðinu.  Hann býður upp á 15 mínútna viðtöl dagana 3. og 4. febrúar (hann byrjar á Stöðvarfirði 3. febrúar og Breiðdalsvík 4. febrúar).

Fyrir þau sem ekki geta hitt hann þessa daga býður hann upp á fjarviðtal eftir samkomulagi en til að bóka það þarf að senda póst á gunnthor@ais.is síminn hjá Gunnþóri er 6991303.  

Gunnþór hittir einnig alla starfsmenn skólans og ræðir við nemendur.

Starfsumhverfi Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla skapar aðrar áskoranir en víða annars staðar í skólastarfi.  Meðal áskorana er að nemendur búa í dreifbýli og tveimur byggðakjörnum og skólastarfið fer fram á tveimur stöðum.  Skólinn er fámennur og því fylgja áskoranir bæði félagslega og námslega.  Á sama hátt skapar þessi staða ýmis tækifæri sem mikilvægt er að koma auga á. Fámennið skapar líka áskoranir við mönnun skólans.

Markmið verkefnisins er að meta hvernig skólastarf er börnum (frá 1-16 ára)  í Breiðdal, á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði fyrir bestu og styrkja skólasamfélagið við Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla (samstarf skóla og samfélags).