Skólinn okkar

Skólasvæðið 

Stöðvarfjarðarskóli er samrekinn grunn- og leikskóli í syðsta byggðarkjarna Fjarðabyggðar. Húsnæði skólans er að stofni til tvær einingar. Eldri hlutinn var tekinn í notkun 1965, en nýrri hlutinn í febrúar 1997.

Í eldri hlutanum er tónlistaskólinn með aðstöðu sína,smíðastofa ásamt leikskóladeildinni. Í nýrri hlutanum (aðalhæð) eru 3 almennar bekkjarstofur, heimilisfræðistofa, list- og verkgreinastofa, eldhús, starfsmannaaðstaða og stórt miðrými.

Á neðri hæðinni er bókasafn og náttúrufræðistofa.  Nýtt íþróttahús var tekið í notkun á Stöðvarfirði árið 2000 og er það staðsett rétt sunnan við skólann.

Sundkennsla fer fram í sundlaug bæjarins, en hún er á skólalóðinni. Félagsmálum eldri nemenda er sinnt að langmestu leyti af Félagsmiðstöðinni Stöðinni, sem staðsett er í Samkomuhúsinu. Rauði kross deildin á staðnum sér um starfið og fær fyrir það þóknun frá Fjarðabyggð.

Skólamáltíðir eru keyptar frá Fjarðaveitingum á Reyðarfirði og sjá skólaliðar um að afgreiða þær.

Stöðugildi eru eftirfarandi: Skólastjóri í 50% stjórnunarstarfi og 50% kennari. Kennarar eru fjórir í 3,6 stöðugildum. Við leikskóladeildina er deildarstjóri í 90% hlutfalli og almennur starfsmaður í 60% hlutfalli.  Skólaliðar eru tveir í 1,7 stöðugildum. Einn stuðningsfulltrúi er í 0,5 stöðugildi. Starfsmaður á bókasafni er í 21% stöðugildi. Húsvörður í ca. 10% hlutfalli.