Saga skólans

Ágrip af sögu skólans                                                              stodvarfjardarskoli

Stöðvarfjörður var gerður að sérstöku sveitarfélagi árið 1905. Kennt var í  svonefndum farskóla þar sem einn eða tveir kennarar sinntu kennslu ýmist í þorpinu eða á bæjunum yfir skólaárið.  Haustið 1937 var tekið í notkun nýtt húsnæði sem að hluta til var byggt í þeim tilgangi að þar færi fram kennsla (Samkomuhúsið).  Þá má segja að kennsla hafi verið komin í fast form og farkennsla heyrði sögunni til að mestu leyti. Það náðist líka festa á mannahald við kennsluna og settur skólastjóri var Runólfur Einarsson, sem sinnti því frá 1937-1964. Anna Þorsteinsdóttir var skólastjóri veturinn 1964-1965. 

Kennsla fór fram í Samkomuhúsinu samfellt frá árinu 1937 – 1965 þar til eldri hluti núverandi skólahúsnæðis var tekinn í notkun. Það haust tók Sólmundur Jónsson við skólastjórn og var allt til ársins 1989 þegar Jónas Eggert Ólafsson núverandi skólastjóri tók við stöðunni.

“Nýi skólinn” þótti hinn veglegasti, var 250m2 að flatarmáli. Í honum voru 3 kennslustofur, kennarastofa, lítið bókaherbergi, baðklefi og búningsherbergi, allstór gangur, kyndiklefi og 4 snyrtiherbergi. 

Þegar fór að bera á þrengslum í skólahúsnæðinu festi hreppurinn kaup á íbúðarhúsi (Bakkagerði, eldra húsið) þar sem kennsla 1. og 2. bekkjar fór fram á efri hæð en leikskólinn var starfræktur á neðri hæð.

Hafist var handa við nýbyggingu við skólahúsið árið 1983.  Í fyrstu var neðri hæðin tekin í notkun en vígsla viðbyggingar fór fram á vorönn 1997.

Íþróttakennsla fór fram í Samkomuhúsinu allt frá 1937 til 2000 þar til íþróttahúsið var tekið í notkun.  Einnig var kennt á gangi “nýja” skólans og á skólalóðinni.  

Sundkennsla fór fram á Búðum frá 1945-1960 en eftir það voru börn send að Eiðum í sundkennslu á vorin.  Sundlaug var tekin í notkun á Stöðvarfirði árið 1983.

Leikskóli var stofnaður árið 1981 og var fyrst til húsa í Bakkagerði (eldra).  Árið 1988 flutti leikskólinn í nýtt húsnæði, sem fékk heitið Balaborg.  Það húsnæði var byggt sem leikskóli og þótti vel heppnuð bygging, allavega var alltaf góður andi í því húsi.  Leikskólastjóri frá byrjun til ársins 2012 var Ingibjörg Eyþórsdóttir.  Árið 2012 sameinuðust Leikskólinn Balaborg og Grunnskólinn á Stöðvarfirði undir nafninu Stöðvarfjarðarskóli og flutti leikskólinn inn í grunnskólahúsnæðið.

Tónlistarkennsla var ekki í föstum skorðum fyrr en upp úr 1980. Tónlistarskóli Stöðvarfjarðar var stofnaður árið 1987 og starfræktur til ársins 2004, þá var hann sameinaður tónlistardeild Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar eftir sameiningu Stöðvar- og Búðahrepps. Skólinn hét Tónlistarskóli Austurbyggðar og var starfræktur á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Eftir sameiningu við Fjarðabyggð heitir skólinn Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.  Skólastjóri frá 2004 er Valdimar Másson.

Núverandi húsnæði

Stærð nýbyggingarinnar er um það bil 850 m2 að flatarmáli á tveimur hæðum og eldri byggingin er 250 m2 að flatarmáli.  Leik- og Tónlistarskólinn eru með aðsetur sitt í eldri hlutanum, ásamt vinnuherbergi kennara.  Einnig fer það fram smíðakennsla.  Í nýrri hlutanum eru 3 almennar kennslustofur, list- og verkgreinastofa, auk heimilisfræðistofu og lítils kennslueldhúss. Einnig er sérkennslurými, ljósritun, kaffistofa starfsfólks, setustofa nemenda, fjölrými með leiksviði og salernisaðstaða fyrir kennara og nemendur.  Bókasafn er á neðri hæð sem er sameiginlegt almennings -og skólasafn. Þar er einnig náttúrufræðistofa skólans.  Íþróttahús var tekið í notkun 2000 og er það steinsnar frá skólanum og sundlaug er í sérhúsnæði á skólalóðinni.

Allstór malbikaður boltavöllur er við skólann, nokkur leiktæki,  afgirt svæði með nýjum leiktækjum (leikskólinn) og sparkvöllur aðeins fjær, rétt utan skólalóðar, á svokölluðum Bala. 

Skólasafn

Skólasafn hefur verið starfrækt frá 1990 á neðri hæð skólans og var sameinað almenningssafninu þetta sama ár.

Frekari upplýsingar má finna í „Skólasögu Stöðvarfjarðar : 1905-1981“ eftir Björn Hafþór Guðmundsson (útg. 1982).