Námsáætlun í náttúrugreinum fyrir 5. - 7. bekk

 

Námsáætlun

 

Bekkur: 5. – 7. bekkur

Námsgrein: Náttúrugreinar

Kennari: Auður Hermannsdóttir          

Tímafjöldi: 80 mínútur á viku.

Námsgögn: Auðvitað – jörð í alheimi eftir Helga Grímsson, Lífríkið í sjó eftir Sólrúnu Harðardóttur, valdir kaflar úr Náttúrulega 2 eftir Halldóru Lind Guðlaugsdóttur, Telmu Ýr Birgisdóttur og Ragnheiði Ölmu Snæbjörnsdóttur auk aukaefnis frá kennara.

 

 

 

Lykilhæfni: Námsgreinin kemur inn á eftirfarandi þætti samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla:

×        Tjáning og miðlun  

×        Skapandi og gagnrýnin hugsun 

×        Sjálfstæði og samvinnu  

×        Nýting miðla og upplýsinga 

×        Ábyrgð og mat á eigin námi.

 

 

Grunnþættir: Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eru grunnþættir menntunar sex: Læsi – Sjálfbærni – Lýðræði og mannréttindi – Jafnrétti – Heilbrigði og velferð – Sköpun.
Í námsgreininni er unnið með alla þessa þætti.

 

 

Kennsluhættir: Kennsla í náttúrufræði á miðstigi er fjölbreytt og byggist m.a. upp á innlögn og fyrirlestrum kennara, verkefnavinnu nemenda, bæði einstaklings- og hópverkefnum og verklegum athugunum og tilraunum. Reynt er að hafa verkefnin sem fjölbreyttust.

Námsmat: Símat sem byggir á verkefnavinnu og ástundun nemenda í kennslustundum auk stuttra kannana í lok hvers efnishluta.

Í Aðalnámsskrá grunnskóla eru sett fram hæfniviðmið í náttúrugreinum fyrir miðstig. Við lok 7. bekkjar eiga nemendur að hafa öðlast færni í öllum þessum þáttum. Á hverju ári er því hluti viðmiðanna tekinn og unnið er í að ná þeirri hæfni sem þar koma fram.

Hér að neðan má sjá öll viðmið námskrárinnar en atriðin sem eru lituð eru þau viðmið sem lögð verður áhersla á þetta skólaár.

 

Vinnulag náttúruvísinda

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

beitt algengustu hugtökum og heitum í náttúruvísindum við athuganir, í umræðu og textaskrifum,

lesið náttúruvísindatexta sér til gagns og endursagt með eigin orðum, túlkað myndrit og skoðað myndefni um náttúrufræði, umorðað og nýtt til útskýringa,

framkvæmt, skráð og safnað upplýsingum út frá einföldum athugunum og mælingum úti og inni samkvæmt fyrirmælum,

kynnt niðurstöður rannsókna, útskýrt hvaða vinnubrögðum var beitt og tekið þátt í umræðum um efnið,

þekkt ferli vísindalegra vinnubragða og unnið eftir þeim í stýrðum verkefnum,

rætt muninn á staðreynd og skoðun, tilgátu og kenningu í tengslum við náttúruvísindi,

rætt valin dæmi um samspil tækni, þekkingar og framfara og hvernig hugmyndir manna um heiminn hafa breyst með aukinni þekkingu.

 

Umhverfið

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

lýst samspili lífvera og lífvana þátta,

lýst mismunandi vistkerfum og nefnt dæmi um áhrif sem nýjar tegundir geta haft á umhverfi sitt,

áttað sig á gildi líffræðilegrar fjölbreytni og tengslum við velferð manna og dýra,

rætt um og skilið ástæður náttúruverndar,

lýst helstu sérkennum veðurfars við Ísland,

útskýrt gróðurhúsaáhrif og tengsl við loftslagsbreytingar,

áttað sig á mikilvægi þess að nýta náttúruauðlindir án þess að ganga um of á þær,

rætt valin dæmi um tengsl einstaklinga, nærumhverfis og umhverfismála á heimsvísu,

skipulagt og tekið þátt í aðgerðum er varða náttúruvernd og umhverfismál í nærumhverfi sínu.

 

 

 

Lífið

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

lýst reynslu sinni, athugun og upplifun af lífverum í náttúrulegu umhverfi,

útskýrt helstu einkenni og lífsskilyrði lífvera og tekið dæmi um tengsl þeirra innbyrðis,

nefnt dæmi um gagn og skaðsemi örvera,

áttað sig á að frumur eru grunneining lífs á jörðinni,

nefnt dæmi um náttúruval og aðlögun,

skilið að lífverur erfa einkenni forfeðra sinna,

sagt frá hvernig plöntur nýta ljóstillífun til að afla næringar,

sagt frá rotverum og hvernig sveppir afla næringar,

sagt frá einkennum helstu hópa dýra,

lýst helstu líffærakerfum mannslíkamans og starfsemi þeirra í grófum dráttum,

lýst breytingum sem verða við kynþroskaaldur og gert sér grein fyrir mikilvægi gagnkvæmrar virðingar í samskiptum kynjanna,

rætt hvernig einstaklingur getur stuðlað að líkamlegu og andlegu heilbrigði.

 

Efnin

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

útskýrt að allt er búið til úr frumeindum og sameindum,

nefnt dæmi um varðveislu massa og tengt við hversdagslega atburði,

notað algeng efnatákn í umfjöllun um lotukerfið og efni í umhverfi sínu,

þekkt algengar formúlur efnasambanda sem birtast í daglegu lífi,

gert grein fyrir efnabreytingum og hamskiptum og útskýrt með dæmum,

fjallað um hugtakið leysni og tengt við athafnir í daglegu lífi,

þekkt muninn á sýru og basa.

 

Orkan

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

lýst helstu orkuformum og lýst einföldum dæmum um varðveislu orkunnar,

rætt dæmi um framleiðslu og nýtingu á orku í daglegu lífi,

sýnt skilning á hugtökunum varmi og hitastig og tengt þau við daglegt líf,

lýst eiginleikum segla og notkun þeirra og kannað eiginleika rafhlaðinna hluta,

framkvæmt einfaldar athuganir á rafrásum og útskýrt hvernig rafmagn verður til,

lýst eiginleikum hljóðs og ljóss og ýmsum fyrirbærum með tilliti til hljóðs og lita,

rætt um gagnsemi og hættur við helstu bylgjur í nærumhverfinu,

þekkt og fjallað um hreyfingu og einfaldar tegundir krafta,

áttað sig á muninum á massa og rúmmáli og helstu mælieiningum þessara eiginleika.

 

Alheimurinn

Við lok 7. bekkjar getur nemandi:

útskýrt árstíðirnar og dægraskipti út frá stöðu jarðar í sólkerfinu,

lýst hvernig náttúruöfl hafa áhrif á myndun og mótun lands,

lýst helstu sérkennum náttúruhamfara sem búast má við á Íslandi og hvernig viðbrögð við þeim eru skipulögð,

lýst gangi tunglsins um jörðina,

gert grein fyrir uppbyggingu sólkerfisins,

gert grein fyrir staðsetningu jarðarinnar í vetrarbrautinni.